Viðskipti innlent

Ásdís Eir fer fyrir mannauðsfólki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásdís Eir Símonardóttir.
Ásdís Eir Símonardóttir.

Ásdís Eir Símonardóttir var kjörin formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi, á aðalfundi félagsins í gær. Ásdís tekur við embættinu af Brynjari Má Brynjólfssyni, mannauðsstjóra RB, sem verið hefur formaður félagsins undanfarin tvö ár. Hann gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu að því er segir í tilkynningu.

Ásdís Eir starfar í dag sem sérfræðingur í mannauðsmálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hún er með M.S gráðu í vinnusálfræði frá Háskóla Íslands og B.S gráðu í sálfræði frá sama skóla.

Ásdís Eir hóf störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur árið 2016 og hefur frá þeim tíma sinnt mannauðsráðgjöf til starfsfólks og stjórnenda OR og dótturfélaganna Orku Náttúrunnar og CarbFix. Áður starfaði Ásdís sem sérfræðingur á mannauðssviði Tollstjóra.

Mannauður er félag mannauðsfólks á Íslandi sem telur nær 400 félagsmenn og fer ört fjölgandi. Markmið og hlutverk félagsins er að efla fagmennsku mannauðsstjórnunar í þágu íslensks atvinnulífs með virkri þátttöku í umræðu um mannauðsmál. Uppruna félagsins má rekja til klúbbs starfsmannastjóra sem stofnaður var á tíunda áratugnum en þróaðist síðan yfir í félag fyrir alla mannauðsstjóra og síðar alls mannauðsfólks og ráðgjafa sem starfa við mannauðsmál á Íslandi

„Félagið hefur eflst og stækkað um meira en helming á síðustu 3 árum og má meðal annars þakka það öflugu starfi stjórnar hverju sinni. Mannauðsfólk út um allan heim stendur frammi fyrir gríðarlega miklum áskorunum sem fylgja bæði tækniframförum sem og kynslóðaskiptum á vinnumarkaði. Það er frábært að fá Ásdísi Eir sem formann félagsins á þessum tímum, hún þekkir félagið vel og er öflugur kandídat til að leiða það inn í nýja tíma“ segir Sigrún Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs.

Á aðalfundi félagsins var einnig kosin ný stjórn en hana skipa auk Ásdísar:

Adriana K. Pétursdóttir, leiðtogi í starfsmannaþjónustu Rio Tinto á Íslandi, Hildur Elín Vignir, Framkvæmdastjóri Iðunar Fræðsluseturs, Hróar Hugosson, Mannauðsstjóri Matís, Íris Sigtryggsdóttir, fræðslustjóri Advania og Margrét Jónsdóttir, Mannauðsstjóri Acranum Fjallaleiðsögumanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×