Innlent

Svona segjast Hafnfirðingar ætla að gera höfnina sína skemmtilega

Kristján Már Unnarsson skrifar
Horft til norðurs yfir höfnina frá gatnamótum Hvaleyrarbrautar og Strandgötu. Neðst til hægri kemur biðstöð borgarlínu.
Horft til norðurs yfir höfnina frá gatnamótum Hvaleyrarbrautar og Strandgötu. Neðst til hægri kemur biðstöð borgarlínu. Mynd/Hafnarfjarðarbær.

Miklar breytingar verða í kringum smábátahöfnina í Hafnarfirði, og íbúðarhúsum blandað inn í atvinnuhverfi, samkvæmt nýju rammaskipulagi sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Myndir af nýrri ásýnd hafnarinnar voru sýndar í fréttum Stöðvar 2. 

Svæðið í kringum smábátahöfnina, sem farið er að kalla Flensborgarhöfn, er núna einkum atvinnusvæði í kringum hafnarstarfsemina en með nýja rammaskipulaginu er mörkuð sú stefna að byggja þar einnig upp íbúðahverfi. 

Kynningarmyndband frá Hafnarfjarðarbæ sýnir fyrst nýja skemmtibátahöfn neðan íþróttahússins við Strandgötu sem kölluð er Hamarshöfn og verður nær miðbænum. Síðan fylgja hjóla- og göngustígar, siglingaklúbbur og í kringum gamla Drafnarslippinn er gert ráð fyrir heitum pottum og aðstöðu til sjóbaða og einnig vistgötu.

Horft frá bryggjupalli við Fornubúðir í átt að Flensborgarhöfn.Mynd/Hafnarfjarðarbær.

Hafnartorg á að koma við Íshúsið með útiveitingastöðum og kaffihúsum og þar eiga bryggjupallar að mynda samfellda gönguleið, að því er fram kemur í kynningu bæjarins. 

Bæjarstjórnin segist þó leggja áherslu á að rekstur fyrirtækja á hafnarsvæðinu verði tryggður og að þar verði gott rými fyrir fiskiskip og smábáta. 

Einhver mesta breytingin verður á Óseyrarsvæðinu en á svokölluðum Fornubúðum kemur blönduð byggð með fjölbreyttu íbúðarhúsnæði og görðum inn á milli húsanna.

Svona verður hið nýja Óseyrarhverfi. Íbúðarhúsin eru 3-5 hæðir. Á hverjum reit er gert ráð fyrir sameiginlegum inngarði fyrir íbúa og leiksvæðum.Mynd/Hafnarfjarðarbær.

Bæjarstjórinn Rósa Guðbjartsdóttir segir rammaskipulagið marka tímamót. Þarna muni rísa skapandi og skemmtilegt hverfi með sterka tengingu við sögu, sjóinn og miðbæinn. 

Núna tekur við aðalskipulagsferli og síðan deiliskipulagsvinna fyrir einstaka reiti. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×