Erlent

Mannfall í skotbardaga á milli bandarískra og afganskra hermanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Afganskir sérsveitarmenn við útskriftarathöfn.
Afganskir sérsveitarmenn við útskriftarathöfn. AP/Rahmat Gul

Nokkrir bandarískir hermenn eru sagðir látnir eftir skotbardaga í Afganistan í kvöld. Enn er óljóst hvað gerðist en skotbardaginn var á milli bandarískra hermanna og afganskra. Einn heimildarmaður AFP fréttaveitunnar sagði afganskan hermann hafa skotið á bandaríska hermenn án fyrirvara. Annar segir deilur hafa leitt til skotbardaga.

Bardaginn átti sér stað þar sem bandarískir sérsveitarmenn voru að aðstoða afganska sérsveitarmenn.

New York Times hefur eftir afgönskum embættismönnum að fimm eða sex bandarískir hermenn hafi fallið og sex afganskir hermenn.

Það er þekkt að vígamenn Talibana eiga það til að dulbúa sig sem afganska hermenn og gera þannig árásir á hermenn annarra ríkja í Afganistan. Sömuleiðis hafa afganskir hermenn sem eru hliðhollir Talibönum skotið á aðra hermenn.

Um tíma voru árásir sem þessar svo tíðar að yfirmenn herafla Bandaríkjanna í Afganistan óttuðust vantraustið sem var að myndast á milli bandarískra hermanna og hermanna frá Afganistan.

Sjá einnig: Bandarískur hershöfðingi lifði af morðtilraun í Afganistan

Bandaríkin eru með um þrettán þúsund hermenn í Afganistan og standa yfir viðræður á milli Bandaríkjanna og Talibana um hugsanlegan friðarsáttmála.

Talibanar stjórna í raun stórum hluta Afganistan og hefur yfirráðasvæði þeirra ekki verið stærra frá því Bandaríkin gerðu innrás árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×