Fótbolti

Búið að reka þjálfara Börsunga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Setién mun ekki stýra liði Barcelona í fleiri leikjum.
Setién mun ekki stýra liði Barcelona í fleiri leikjum. EPA-EFE/Rafael Marchante

Spænska stórveldið Barcelona hefur rekið Quique Setién, þjálfara sinn, eftir aðeins átta mánuði í starfi. 

Þetta staðfesti Josep Bartomeu forseti félagsins nú í kvöld. Talið er að Ronald Koeman, fyrrum leikmaður Barcelona og núverandi landsliðsþjálfari Hollands sé líklegastur til að taka við.

Setien var ráðinn í janúar á þessu ári þegar Ernesto Valverde var látinn fara. Sá hafði skilað liðinu spænska meistaratitlinum tvö ár í röð og var liðið í efsta sæti deildarinnar þegar Setién tók við.

Síðan hinn 61 árs gamli Setién tók við liðinu hefur allt gengið á afturfótunum. Lionel Messi – argentíski snillingurinn í röðum Börsunga – ku hafa fengið nóg af vanhæfni stjórnarmanna félagsins og vill yfirgefa félagið. Messi hefur allan sinn feril leikið fyrir Barcelona og slegið hvert metið á fætur öðru.

Liðinu tókst að glutra niður forystu sinni á Spáni og leyfði erkifjendum sínum í Real Madrid að landa titlinum. Þá tapaði liðið 8-2 fyrir Bayern Munich í Meistaradeild Evrópu. Eitthvað sem á ekki að geta komið fyrir félag af þeirri stærðargráðu og Barcelona er.

Mögulega tekur Koeman við á morgun en það er ljóst að hann þarf að hafa hraðar hendur þar sem undirbúningstímabil Börsunga hefst eftir aðeins tvær vikur og það er deginum ljósara að það þarf að taka til hendinni í leikmannahóp liðsins.


Tengdar fréttir

Koeman gæti tekið við Börsungum

Ronald Koeman – landsliðsþjálfari Hollands – gæti orðið næsti þjálfari spænska knattspyrnufélagsins Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×