Fótbolti

Segir að Messi ætli sér að yfirgefa Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lionel Messi virðist hafa fengið nóg af aulaskapnum í stjórn Barcelona.
Lionel Messi virðist hafa fengið nóg af aulaskapnum í stjórn Barcelona. VÍSIR/GETTY

Argentínumaðurinn Lionel Messi ku hafa fengið nóg af ruglinu bakvið tjöldin sem og inn á vellinum hjá Barcelona og vill fara frá félaginu.

Þessu greinir fjölmiðlamaðurinn Marcelo Bechler frá en hann var fyrstur til að greina frá því að Neymdar væri að fara til Paris Saint-Germain frá Barcelona á sínum tíma.

Messi er ósáttur við yfirmenn sína, allt frá þjálfara til stjórnarmanna. Þá er hann óánægður með það hvernig félagið höndlaði launalækkun leikmanna í kjölfar kórónufaraldursins.

Frammistaða liðsins í spænsku úrvalsdeildinni eftir að hlé var gert á henni vegna kórónufaraldursins hefur spilað sinn þátt í ákvörðun Messi. Þá var 8-2 afhroð liðsins gegn Bayern Munich í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu síðasta stráið.

Hinn 33 ára gamli Messi hefur leikið með Barcelona allan sinn feril og unnið fjöldan allan af verðlaunum ásamt því að vera talinn einn allra besti knattspyrnumaður frá upphafi. Þó hann sé orðinn þetta gamall er ljóst að mörg félög myndu gefa mikið til þess að fá Messi í sínar raðir.


Tengdar fréttir

Hvert er næsta skref hjá Barcelona?

Eftir að hafa fallið úr leik í Meistaradeild Evrópu á sársaukafullan hátt þriðja árið í röð er orðið ljóst að gullaldarskeið Barcelona er á enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×