Erlent

Japanar stofna einnig geimher

Samúel Karl Ólason skrifar
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan. EPA/Franck Robichon

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, tilkynnti í morgun að ríkisstjórn hans ætli sér að stofna svokallaðan geimher eins og Bandaríkin. Sú herdeild mun þó ekki há orrustur í geimnum heldur vinna að því að verja Japan gegn hátæknivopnum og tölvuárásum, auk þess að verja gervihnetti og eldflaugar Japan.

Samkvæmt frétt Sky News mun herdeildin taka til starfa í apríl og vinna náið með geimher Bandaríkjanna, sem Donald Trump, forseti, stofnaði nýverið.

Einungis tuttugu manns munu tilheyra herdeildinni í fyrstu en fleirum verður bætt við þegar líður á árið. Herdeildin á að vera fullmönnuð

Abe vísaði til þess að Japan þurfi að verja gervihnetti sína en fregnir hafa borist af því að yfirvöld Kína og Rússlands hafi verið að vinna að leiðum til að gera gervihnetti annarra þjóða óvirka eða jafnvel eyða þeim.

Forsætisráðherrann hefur á undanförnum árum unnið að því að auka vægi varnarliðs Japan en samkvæmt stjórnarskrá landsins, sem samin var eftir seinni heimsstyrjöldina, er varnarliðinu óheimilt að starfa utan landhelgi Japan.

Einn liður í því er að auka samstarf Japan við Bandaríkin. Með aukinni getu Norður-Kóreu til árása hafa áhrifamenn í Japan þó kallað eftir því að ríkið byggi upp eigin árásagetu og reiði sig ekki alfarið á Bandaríkin í þeim málum. Japanskir hermenn voru til dæmis sendir til Mið-Austurlanda í byrjun ársins.

Sjá einnig: Vilja byggja upp eigin árásagetu

Almenningur hefur þó ekki sýnt mikinn áhuga á því að gera breytingar á stjórnarskránni með það að markmiði, samkvæmt frétt Washington Post.

Abe ítrekaði einnig í morgun að hann ætlaði sér að reyna að funda með Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, og án þeirra skilyrða sem hann hefði sett fram áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×