Erlent

Meghan farin aftur til Kanada

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, er snúin aftur til Kanada eftir stutt stopp í Bretlandi.
Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, er snúin aftur til Kanada eftir stutt stopp í Bretlandi. vísir/getty

Hertogaynjan af Sussex, Meghan Markle, er farin aftur til Kanada til þess að vera með átta mánaða gömlum syni þeirra Harry Bretaprins, Archie.

Fjölskyldan dvaldi í Kanada í desember og komu hertogahjónin aftur til Bretlands á þriðjudag. Archie varð eftir hjá barnfóstru og vinkonum Meghan í Kanada.

Það er ekki ofsögum sagt að Meghan og Harry hafi valdið titringi innan bresku konungsfjölskyldunnar nú í vikunni eftir að þau tilkynntu á miðvikudagskvöld að þau hyggist draga sig í hlé, hætta að sinna embættisskyldum með sama hætti og þau hafa gert og verða fjárhagslega sjálfstæð.

Drottningin vildi ekki funda strax með Harry

Tilkynningin kom konungsfjölskyldunni í opna skjöldu. Harry var byrjaður að ræða málið lítillega við föður sinn, Karl, og hafði óskað eftir fundi með ömmu sinni, Elísabetu II Englandsdrottningu, til þess að ræða framtíðarplön sín og Meghan um leið og þau hjónin kæmu aftur til Englands frá Kanada.

Drottningin taldi hins vegar ekki ráðlegt að funda með barnabarninu fyrr en hann væri búinn að ræða málið nánar við föður sinn. Þá var hertogahjónunum ráðlagt að segja ekki frá áformum sínum opinberlega.

Eftir að þau greindu svo frá áformum sínum í færslu á Instagram í fyrradag bárust fregnir af því að konungsfjölskyldan væri sár og vonsvikin. Drottningin sjálf væri í miklu uppnámi og Karl og Vilhjálmur, bróðir Harry, væru hjónunum afar reiðir.

Hins vegar hefur drottningin nú beint því til starfsmanna konungsfjölskyldunnar og stjórnvalda að reyna að finna lausn á málinu svo fljótt sem verða má svo ákveða megi hver framtíðarhlutverk Harry og Meghan verða.

Á meðan unnið er að þeirri lausn er Meghan í Kanada en Harry í Bretlandi. Stutt stopp Meghan í Bretlandi nú er raunar ekki talið tengjast ákvörðun þeirra þar sem hún ætlaði alltaf að fara fljótt aftur til sonarins í Kanada.


Tengdar fréttir

Megxit skekur Bretland: „Meghan fær það sem hún vill“

Fjallað er um ákvörðun hertogahjónanna af Sussex, þeirra Harry og Meghan, um að draga sig í hlé frá bresku konungsfjölskyldunni, hætta að sinna embættisskyldum og verða fjárhagslega sjálfstæð á forsíðum allra stærstu dagblaða Bretlands í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×