Erlent

Vill að Bandaríkin undirbúi brottflutning hermanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Adel Abdul-Mahdi, starfandi forsætisráðherra Írak.
Adel Abdul-Mahdi, starfandi forsætisráðherra Írak. AP/Burhan Ozbilici

Adel Abdul-Mahdi, starfandi forsætisráðherra Írak, hefur beðið yfirvöld Bandaríkjanna um að hefja undirbúning á brottflutningi bandarískra hermanna frá Írak. Þetta ræddi Mahdi við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag og er það til marks um að hann ætli að standa við ályktun þings Írak um að erlendir hermenn ættu að yfirgefa landið.

Mahdi sagði árásir Bandaríkjanna í Írak vera óásættanleg brot á fullveldi landsins og brot á fyrri samkomulögum ríkjanna. Hann bað Pompeo um að senda sendinefnd til Írak svo undirbúa megi brottflutning hermanna.

Forsætisráðherrann krafðist þess ekki að Bandaríkin fjarlægðu hermenn sína á næstunni og nefndi ekki hvenær það ætti að verða.

Eins og AP fréttaveitan bendir á eru þingmenn Íran ekki sammála um að bandarískir hermenn eigi að yfirgefa Írak. Súnnítar telja Bandaríkin standa í vegi fyrir algerum yfirráðum sjíta og Íran í Írak og Kúrdar hafa hagnast verulega á aðstoð Bandaríkjanna og þjálfun frá bandarískum hermönnum.

Utanríkisráðuneyti bandaríkjanna hefur nú svarað Mahdi og í yfirlýsingu frá ráðuneytinu segir að verði sendinefnd send til Írak muni hún ekki taka þátt í viðræðum um brottflutning bandarískra hermanna frá Írak. Þess í stað myndi hún ræða hvernig bæta megi samskipti ríkjanna og jafnvel að auka aðkomu Atlantshafsbandalagsins að öryggi Írak.

Þá sé þörf á samræðum um efnahagslegt samband ríkjanna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×