Erlent

Soldáninn af Óman látinn

Andri Eysteinsson skrifar
Qaboos bin Said árið 1970, sama ár og hann náði völdum.
Qaboos bin Said árið 1970, sama ár og hann náði völdum. Getty/Keystone

Þaulsetnasti þjóðhöfðingi arabísks ríkis, Soldáninn af Óman, Qaboos bin Said al Said er látinn, 79 ára að aldri. Greint er frá andláti Qaboos á vef BBC.

Í yfirlýsingu ómönsku konungshallarinnar segir að Qaboos hafi látist í gær, föstudag, en hann hafði nýlega snúið heim að nýju eftir að hafa leitað sér læknishjálpar í Evrópu en talið er að hann hafi glímt við krabbamein.

Lýst hefur verið yfir þriggja daga þjóðarsorg. Qaboos var ógiftur og barnslaus og var því óljóst hver tæki við af honum sem Soldán. Það skýrðist þó þegar erfðaskrá hans var opnuð en hann hafði útnefnt frænda sinn, menningarmálaráðherrann Haitham bin Tariq Al Said sem erfingja og hefur hann tekið við krúnunni.

Qaboos soldán hrifsaði völdin af föður sínum í friðsömu valdaráni árið 1970 en að baki honum stóðu bresk stjórnvöld. Færði Qaboos í kjölfarið stjórnarhætti Óman nær nútímanum en miklar hömlur höfðu verið settar á íbúa landsins á stjórnartíð föður hans Said bin Tamur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×