Viðskipti innlent

Kristín Ýr úr fréttunum í samskiptin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristín Ýr býr að reynslu úr fjölmiðlunum.
Kristín Ýr býr að reynslu úr fjölmiðlunum. Aton.Jl

Kristín Ýr Gunnarsdóttir hefur hafið störf sem ráðgjafi hjá samskiptafélaginu Aton.JL. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu þar sem segir að Kristín sé með viðamikla reynslu úr fjölmiðlum sem spanni rúman áratug.

Síðast starfaði hún sem fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis. Hún hefur einnig starfað sem blaðamaður á 24 stundum, Vikunni, Mannlífi og Nýju lífi ásamt því að hafa verið lausapenni fyrir Stundina.

Þá starfaði Kristín á árunum 2015 til 2018 hjá Alþýðusambandi Íslands, sem verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála. Samhliða blaðamennsku starfaði Kristín í kvikmyndagerð og kom að gerð sjónvarpsþátta sem og auglýsinga.

Kristín er með diplómagráðu í kvikmyndagerð og hefur stundað fjarnám við Háskólann á Bifröst, í almannatengslum og miðlun, samhliða vinnu.

„Víðtæk reynsla Kristínar, bæði úr fjölmiðlum og upplýsinga- og kynningamálum mun koma sér virklega vel þegar það kemur að þeirri þjónustu sem við bjóðum viðskiptavinum okkar hjá Aton.JL. Við bjóðum hana velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins,“ segir Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×