Erlent

Meg­han tók ekki þátt í krísu­fundinum í Sandring­ham-höll

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Meghan stendur hér á milli drottningarinnar og eiginmannsins. Myndin er tekin á viðburði í apríl 2018. Meghan og Harry höfðu þá verið trúlofuð í um það bil ár og giftu sig mánuði síðar.
Meghan stendur hér á milli drottningarinnar og eiginmannsins. Myndin er tekin á viðburði í apríl 2018. Meghan og Harry höfðu þá verið trúlofuð í um það bil ár og giftu sig mánuði síðar. vísir/Getty

Hertogaynjan af Sussex, Meghan Markle, tók ekki þátt í fundi sem Elísabet II Englandsdrottning boðaði til með Karli, syni sínum, og sonarsonum sínum, Vilhjálmi og Harry, í Sandringham-höll drottningarinnar í gær.

Til umræðu á fundinum var framtíð hertogahjónanna af Sussex, þeirra Meghan og Harry, innan bresku konungsfjölskyldunnar en þau tilkynntu í liðinni viku að þau hygðust hætta að sinna konunglegum embættisskyldum og lifa í staðinn sjálfstæðara lífi, bæði í Kanada og Bretlandi.

Yfirlýsingin kom konungsfjölskyldunni í opna skjöldu og var drottningin sögð miður sín vegna málsins. Þá hefðu Karl og Vilhjálmur reiðst mjög þeim Harry og Meghan.

 

Að því er greint er frá á vef Guardian var talið að Meghan myndi taka þátt í einhverjum hluta fundarins í gær í gegnum síma en hún er í Kanada ásamt Archie, syni hennar og Harry.

Síðan fóru sögusagnir af stað um að Meghan hefði verið bannað að taka þátt í fundinum en heimildarmaður Guardian segir að hertogahjónin hafi sjálf ákveðið að það væri óþarfi fyrir Meghan að hringja sig inn á fundinn frá Kanada.

Buckingham-höll hefur ekki gefið neitt upp um það hvað nákvæmlega var rætt á fundinum. Eftir fundinn sendi drottningin hins vegar frá sér yfirlýsingu, sem breskir fjölmiðlar lýsa sem afar persónulegri, þar sem hún sagðist hafa samþykkt sérstakt aðlögunartímabil fyrir Harry og Meghan þar sem myndu deila tíma sínum á milli Kanada og Bretlands.

Þá yrði lokaákvörðun um framtíðarhlutverk hertogahjónanna tekin á allra næstu dögum. Fram kom í yfirlýsingunni að drottningin virði vilja Harry og Meghan til þess að finna sér ný hlutverk. Hún hefði þó sjálf kosið að hlutverk þeirra hefðu verið óbreytt.


Tengdar fréttir

Megxit skekur Bretland: „Meghan fær það sem hún vill“

Fjallað er um ákvörðun hertogahjónanna af Sussex, þeirra Harry og Meghan, um að draga sig í hlé frá bresku konungsfjölskyldunni, hætta að sinna embættisskyldum og verða fjárhagslega sjálfstæð á forsíðum allra stærstu dagblaða Bretlands í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×