Fótbolti

Bara eitt stig í fjórum leikjum hjá Heimi og Aroni eftir 1-0 tap í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik með Al Arabi liðinu.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Al Arabi liðinu. Getty/Simon Holmes

Al Arabi tapaði 1-0 á móti Al Sailiya í katörsku deildinni í dag og datt fyrir vikið niður í sjötta sætið.

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn á miðju Al Arabi í leiknum en þjálfarinn er Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands.

Úrslitin þýða að Al Arabi hefur aðeins fengið eitt stig af tólf mögulegum síðan að keppni hófst á nýjan leik eftir kórónuveiruhlé.

Jórdaninn Mohammad Abu Zrayq skoraði eina mark leiksins eftir aðeins tveggja mínútna leik í seinni hálfleik.

Al Arabi hefur tapað þremur af fjórum leikjum sínum síðan að keppni hófst á nýjan leik í lok júlí en eina stigið kom í markalausu jafntefli. Eina markið í þessum fjórum leikjum kom úr víti.

Tapið á móti Al Sailiya í dag þýðir líka að Al Arabi datt niður í sjötta sætið og hleypti Al Sailiya upp fyrir sig. Al Sailiya var ekki búið að vinna í síðustu fjórum deildarleikjum sínum og var þetta mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×