Erlent

Útlit fyrir stórsigur Lúkasjenkó

Andri Eysteinsson skrifar
Lúkasjenkó, sem hefur stýrt Hvíta-Rússlandi með harðri hendi frá 1994, virðist hafa náð endurkjöri og það örugglega.
Lúkasjenkó, sem hefur stýrt Hvíta-Rússlandi með harðri hendi frá 1994, virðist hafa náð endurkjöri og það örugglega. AP/Nikolai Petrov/BeITA

Útlit er fyrir að forseti Hvíta-Rússlands, hinn þaulsetni Alexander Lúkasjenkó hafi tryggt sér forsetastólinn í eitt kjörtímabil í viðbót.

Útönguspár ríkisrekinna fjölmiðla í Hvíta-Rússlandi sýna fram á yfirburðasigur Lúkasjenkó sem hefur þó sjaldan fengið jafn mikla keppni. Lúkasjendko, sem hefur stýrt landinu í 26 ár, hlýtur samkvæmt útgönguspám 79,7% greiddra atkvæða en helsti andstæðingur hans, Svetlana Tíkanovskaja er sögð hljóta 6,8% atkvæða.

Lukasjenkó hefur setið við völd í Mínsk frá árinu 1994 en hefur sjaldnast fengið alvöru mótspyrnu í forsetakosningum. Síðast þegar Hvítrússar gengu til atkvæða hlaut forsetinn 83,5% atkvæða. Stjórn hans hefur þó verið harðlega gagnrýnd undanfarið og hefur örlað á óvild í hans garð.

Helsti mótframbjóðandi hans í ár, kennarinn Svetlana Tíkanovskaja, steig í skarðið sem myndaðist þegar eiginmanni hennar var meinað að bjóða sig fram. Hún ásamt tveimur öðrum konum Maríu Kolesníkóvu og Veroniku Tsjepkaló , sem höfðu starfað við framboð annarra frambjóðanda, mynduðu sterkt teymi sem þótt njóta nokkurs fylgis fyrir kosningarnar.

Andstæðingar Lúkasjenkó sögðu fyrir kosningarnar að búist væri við því að svindlað yrði í kosningunum og myndu fulltrúar stjórnarandstöðunnar einnig telja atkvæði til þess að forðast svindl fylgismanna forsetans.

Þegar hefur komið til átaka á milli lögreglu og andstæðinga Lúkasjenkó á götum Mínsk og mótmælt er víðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×