Erlent

Tveir látnir í lestar­slysi í Portúgal

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lestarslysið varð á fjórða tímanum í dag í Coimbra héraði í Portúgal.
Lestarslysið varð á fjórða tímanum í dag í Coimbra héraði í Portúgal. EPA/PAULO CUNHA

Tveir dóu og minnst þrjátíu særðust þegar hraðlest fór út af sporum sínum í Coimbra héraði í Portúgal. Lestin var á ferð norður þegar hún lenti í árekstri við viðhaldsvél í bænum Soure samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins.

Mário Jorge, bæjarstjóri Soure, sagði í samtali við portúgalska fréttamiðla að áreksturinn hafi skeð um klukkan hálf fjögur að staðartíma í dag. Þá sagði almannavarnadeild Portúgal, CNOS, í samtali við fréttastofu Reuters að viðbragðsaðilar séu á staðnum.

Verið er að setja upp bráðabirgðarsjúkrahús nærri slysstaðnum.EPA/PAULO CUNHA

Talsmaður CNOS sagði að 163 viðbragðsaðilar, þar á meðal slökkviliðsmenn og tvær sjúkraþyrlur, séu á staðnum. 240 farþegar voru um borð í Alfa Pendular lestinni þegar áreksturinn varð en lestin er sú hraðskreiðasta í Portúgal.

Fleiri viðbragðsaðilar eru á leið á staðinn og verið er að setja upp bráðabirgðarspítala nærri slysstað. Samkvæmt staðarmiðlum eru enn einhverjir farþegar fastir inni í lestinni.

Þá sagði sjónarvottur í samtali við portúgalska fréttablaðið Diário de Noticias að mikil ringulreið hafi verið í lestinni eftir áreksturinn og að einn farþeganna hafi hrópað: „Leggist öll niður á jörðina!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×