Fótbolti

Sara skoraði í þriðja leiknum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk hefur skorað í öllum þremur leikjunum sem hún hefur spilað með Lyon.
Sara Björk hefur skorað í öllum þremur leikjunum sem hún hefur spilað með Lyon. vísir/vilhelm

Það er engum ofsögum sagt að Sara Björk Gunnarsdóttir hafi farið vel af stað með Frakklands- og Evrópumeisturum Lyon.

Landsliðsfyrirliðinn hefur leikið þrjá leiki með Lyon á undirbúningstímabilinu og skorað í þeim öllum.

Sara skoraði eitt mark í stórsigri Lyon á Gornik Leczna, 9-0, í Póllandi í dag og lagði upp annað. Í fyrradag skoraði hún eitt mark í 4-1 sigri á Czarni Sosnowiec og á laugardaginn gerði hún eitt marka franska liðsins í 5-0 sigri á Medyk Konin.

Sara kom inn á sem varamaður fyrir Saki Kumagi í hálfleik í leiknum í dag. Á 58. mínútu lagði hún upp mark fyrir ensku landsliðskonuna Lucy Bronze sem kom Lyon í 7-0.

Melvine Malard kom Lyon í 8-0 á 63. mínútu og ellefu mínútum síðar skoraði Sara níunda markið.

Nikita Parris skoraði þrennu fyrir Lyon í leiknum í dag, Eugénie Le Sommer skoraði tvö mörk og Sara, Malard, Bronze og Amandine Henry sitt markið hver.

Lyon á enn eftir að klára tímabilið 2019-20 vegna kórónuveirufaraldursins. Fyrsti keppnisleikur liðsins eftir nokkurra mánaða hlé verður sunnudaginn 2. ágúst. Lyon sækir þá Guingamp heim í undanúrslitum frönsku bikarkeppninnar. Úrslitaleikurinn fer svo fram 9. ágúst.

Þann 22. ágúst mætir Lyon svo Bayern München í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þrátt fyrir að hafa leikið með Wolfsburg í Meistaradeildinni á þessu tímabili má Sara spila með Lyon í átta liða úrslitum keppninnar og á seinni stigum hennar ef liðið kemst áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×