Innlent

Mesta júlífrost á Þing­völlum í ára­tug

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mynd sem Einar birtir með færslunni. Blái liturinn er frávik loftmassahitans (þykkt 1000/500 hPa).
Mynd sem Einar birtir með færslunni. Blái liturinn er frávik loftmassahitans (þykkt 1000/500 hPa).

Hiti á Þingvöllum fór lægst í -1,5 gráður í nótt. Ekki hefur mælst meira frost á svæðinu í júlímánuði í rúman áratug, eða frá því í júlí árið 2009. Þetta kemur fram í færslu Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings á Facebook í dag.

Þar lýsir hann „kaldri nótt í snarpri útgeislun á Þingvöllum“. Lágmarkshitinn hafi verið -1,5 gráður líkt og áður segir. Hitinn hafi þannig fallið mjög, eða úr 10,1 stigi klukkan 22 og niður í 1,7 stig klukkan 1 eftir miðnætti. Þá frysti einnig á Kálfhóli á Skeiðum og ef til vill víðar. Búast má við fleiri frostanóttum á Þingvöllum á næstunni, að sögn Einars.

„Næstu 10 dagana er því spáð að landið verði meira og minna utan í kaldri skál,“ skrifar hann.

„N- og NA-áttir ríkjandi. Þær verða fleiri bjartar og svalar nætur sunnanlands og ekki loku fyrir það skotið nú þegar tekur að dimma um lágnættið að frostnæturnar s.s. á Þingvöllum verði fleiri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×