Innlent

Doktor í hjúkrunar­fræði nýr að­stoðar­rektor Kvik­mynda­skólans

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigrún Sigurðardóttir, doktor í hjúkrunarfræði.
Sigrún Sigurðardóttir, doktor í hjúkrunarfræði. Vísir/aðsend

Dr. Sigrún Sigurðardóttir, dósent á Heilbrigðisvísindasviði við Háskólann á Akureyri, hefur verið ráðin aðstoðarrektor Kvikmyndaskóla Íslands frá 1. september næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

Alls bárust 35 umsóknir um starfið, sem er ný staða við skólann, og fimm voru metnir vel hæfir.

Sigrún hefur starfað sem háskólakennari um margra ára skeið og hefur séð um skipulag á námskeiðum og - leiðum, auk þess að hafa reynslu af akademískum ráðningum og matskerfum, að því er segir í tilkynningu.

Sigrún er doktor í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er á sviði sálrænna áfalla, ofbeldis og áfallamiðaðrar nálgunar. Hún var ein af stofnendum og fyrsti formaður Krabbameinsfélags Sigurvonar á Norðanverðum Vestfjörðum  og var ein af stofnendum Rannsóknarmiðstöðvar gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri árið 2011, hvar hún situr í stjórn. Þá situr hún í stjórn Bjarmahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri og var annar af stofnendum Samtaka um stuðningssetur fyrir ungt fólk, sem stofnuð voru í september 2018. 

Þá er þess sérstaklega getið í tilkynningu að staða aðalrektors við Kvikmyndaskólann sé ætíð skipuð kvikmyndagerðarmönnum. Kvikmyndaleikstjórar hafi þar „fyrsta rétt.“ Núverandi rektor skólans er Friðrik Þór Friðriksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×