Innlent

Grótta áfram lokuð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Viti var fyrst reistur við Gróttu árið 1897 og þar bjó lengi vitavörðurinn Albert Þorvarðarson.
Viti var fyrst reistur við Gróttu árið 1897 og þar bjó lengi vitavörðurinn Albert Þorvarðarson. Vísir/Vilhelm

Friðlandið við Gróttu í Seltjarnarnesbæ verður lokað út júlí hið minnsta. Umrætt svæði er skilgreint sem friðland og er umferð óviðkomandi fólks alla jafna bönnuð á tímabilinu 1. maí til 15. júlí. Umhverfisstonun hefur nú framlengt lokun friðlandsins til 31. júlí vegna „sérstaklega viðkvæms ástands náttúru,“ eins og það er orðað í orðsendingu stofnunarinnar.

„Umhverfisstofnun telur mikilvægt að framlengja lokunina þar sem hætta er á verulegri röskun á fuglalífi ef svæðið verður opnað á þeim tíma sem tilgreindur er í auglýsingunni, enda um viðkvæmt tímabil fuglalífs að ræða,“ segir Umhverfisstofnun og vísar þar til tímabilsins 1. maí til 15. júlí.

Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að um 450 kríupör hafi að jafnaði verið í Gróttu. Krían sé ábyrgðartegund og alfriðuð. „Svæðið nálægt Gróttu, sem og Grótta, er vinsælt útivistarsvæði og því mikilvægt að bregðast við sem fyrst.“

Sem fyrr segir er gengið út frá því að lokun Gróttu vari til 31. júlí. Ef nauðsyn krefur er þó heimilt að framlengja hana, að fenginni staðfestingu ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×