Viðskipti innlent

Kvika hyggst eignast Netgíró

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Kviku í Borgartúni.
Höfuðstöðvar Kviku í Borgartúni. VísirVilhelm Gunnarsson

Forsvarsmenn Kviku segja bankann hafa undirritað viljayfirlýsingu um að kaupa Netgíró að fullu og verða eini eigandi þess. Fyrir á bankinn 20 prósent í fjártæknifyrirtækinu og hyggst Kvika því kaupa 80 prósentin sem upp á vantar.

Viljayfirlýsingin er þó sögð gerð með ýmsum fyrirvörum, „svo sem um samþykki stjórnar Kviku, niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki eftirlitsaðila. Áætlað er að ganga frá kaupsamningi innan þriggja mánaða,“ segir í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar.

Þar segir jafnframt að kaupin á Netgíró séu í samræmi við stefnu bankans, það sé ætlun Kviku að nýta tæknilausnir í fjármálaþjónustu sinni.

„Kvika hefur átt farsælt samstarf við Netgíró á undanförnum árum, meðal annars varðandi fjármögnun á kröfusafni félagsins. Kaupin gera bankanum kleift að efla enn frekar samstarfið við Netgíró sem leiðir til aukinnar skilvirkni og hagræðingar hjá báðum aðilum. Netgíró er nú á tæplega 3.000 sölustöðum á landinu og yfir 68.000 einstaklingar eru í viðskiptum við fyrirtækið,“ segir í Kauphallartilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×