Erlent

Holland stefnir Rúss­landi vegna hraps MH17

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Kjartan Kjartansson skrifa
Vél Malaysia Airlines hrapaði yfir austurhluta Úkraínu eftir að skotið var á hana. Allir 298 farþegar um borð létu lífið.
Vél Malaysia Airlines hrapaði yfir austurhluta Úkraínu eftir að skotið var á hana. Allir 298 farþegar um borð létu lífið. EPA-EFE/KOEN VAN WEEL

Hollensk yfirvöld hyggjast stefna Rússlandi fyrir Mannréttindadómstól Evrópu vegna aðildar Rússa að hrapi vélar Malaysia Airlines MH17 árið 2014. Stef Blok, utanríkisráðherra Hollands, segir mestu máli skipta að fá réttlæti fyrir fórnarlömbin 298 sem fórust í vélinni sem var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu. Rússnesk yfirvöld hafa ekki tjáð sig um málið.

Vélin var skotin niður eftir að uppreisnarmenn sem njóta stuðnings Rússa tóku stjórn á svæðinu árið 2014. Samkvæmt upplýsingum frá hollenskum rannsakendum benda sönnunargögn til þess að Buk-eldflaugakerfið sem notað var til að skjóta vélina niður hafi verið flutt inn frá Rússlandi.

Rússland hefur ítrekað neitað aðild að hrapi þotunnar. Um borð í vélinni voru ríkisborgarar tíu landa og létust allir um borð í vélinni. Vélin var á leið frá Amsterdam í Hollandi til Kúala Lúmpur í Malasíu en meira en tveir þriðju farþeganna voru hollenskir ríkisborgarar.

Réttarhöld, sem hófust í mars, standa enn yfir í Hollandi þar sem þrír Rússar og einn Úkraínumaður eru sakaðir um morðin á farþegunum 298. Mennirnir tengjast allir hópi aðskilnaðarsinna sem styðja rússnesk yfirvöld. Talið er að réttarhöldin muni standa yfir í marga mánuði í viðbót.

Nú hefur hollenska ríkisstjórnin ákveðið að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Stjórnvöld í Kreml hafa enn ekki brugðist formlega við en þau hafa orðið margsaga um hvað varð til þess að farþegaþotan hrapaði.

Þrátt fyrir að Rússar haldi því fram að þeir hafi boðist til að aðstoða við réttarhöldin í Hollandi segja þarlendir embættismenn að þær upplýsingar sem rússnesk stjórnvöld hafi sent hafi verið „efnislega rangar“ í mörgum tilfellum. Þegar hollenskir saksóknarar báðu rússnesk stjórnvöld um að handtaka Úkraínumanna sem er talinn hafa stýrt loftvörnum yfir svæðinu þar sem þotan hrapaði leyfðu þau honum viljandi að komast undan til Úkraínu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×