Formúla 1

Alonso snýr aftur í Formúlu 1 á næsta ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fernando Alonso varð tvisvar sinnum heimsmeistari með Renault, liðinu sem hann ætlar að endurnýja kynnin við á næsta ári.
Fernando Alonso varð tvisvar sinnum heimsmeistari með Renault, liðinu sem hann ætlar að endurnýja kynnin við á næsta ári. getty/Marco Canoniero

Fernando Alonso ætlar að snúa aftur í Formúlu 1 með Renault á næsta tímabili. Spánverjinn hætti keppni eftir tímabilið 2018.

BBC greinir frá endurkomu Alonsos. Hann tekur sæti Daniels Ricciardo hjá Renault en hann fer til McLaren eftir tímabilið. Alonso og Frakkinn Esteban Ocon munu því keppa fyrir Renault á næsta tímabili.

Í frétt BBC kemur fram að Alonso hafi átt í viðræðum við Renault frá því í nóvember á síðasta ári.

Alonso varð heimsmeistari ökuþóra með Renault 2005 og 2006. Hann fór í kjölfarið til McLaren en var aðeins í eitt ár þar og gekk svo aftur í raðir Renault. Alonso ók fyrir Ferrari á árunum 2010-14 og fór svo aftur til McLaren. Hann lenti í 2. sæti í keppni ökuþóra 2010, 2012 og 2013.

Alonso, sem verður 39 ára síðar í þessum mánuði, hefur unnið 32 keppnir í Formúlu 1 á ferlinum. Aðeins fimm hafa unnið fleiri keppnir: Michael Schumacher, Lewis Hamilton, Sebastian Vettel, Alain Prost og Ayrton Senna. 

Síðasti sigur Alonsos kom 2013 en síðustu árin hjá McLaren voru erfið, bæði fyrir hann og liðið.

Renault endaði í 5. sæti í keppni bílasmiða á síðasta tímabili. Í fyrstu keppni ársins, í Austurríki um helgina, endaði Ricciardo í 10. sæti og Ocon í því fjórtánda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×