Innlent

Kallaðar út vegna báts í vanda utan Ólafs­fjarðar­múla

Atli Ísleifsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var á flugi þegar útkallið barst. Myndin er úr safni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var á flugi þegar útkallið barst. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Þyrla Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir voru kallaðar út vegna báts í vanda undan Ólafsfjarðarmúla á tólfta tímanum í dag.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að um fimm tonna fiskibát hafi verið að ræða sem hafi orðið vélarvana vestur af Hrólfsskeri og rekið hratt að bjargi í Ólafsfjarðarmúla.

„Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði sömuleiðis eftir aðstoð báta í grenndinni sem brugðust hratt við. Þyrla Landhelgisgæslunnar var á flugi þegar útkallið barst. Áður en þyrlan og björgunarsveitir komu á staðinn tókst að koma bátinum í tog sem var dreginn til hafnar á Dalvík. Einn var um borð í bátnum og sakaði hann ekki,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×