Erlent

Evrópu­sam­bandið opnar landa­mæri fyrir fjór­tán ríkjum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bandaríkjamenn verða ekki meðal ferðalanga sem fá inngöngu í ríki Evrópusambandsins og Schengen frá og með 1. júlí.
Bandaríkjamenn verða ekki meðal ferðalanga sem fá inngöngu í ríki Evrópusambandsins og Schengen frá og með 1. júlí. AP Photo/Christophe Ena

Evrópusambandið tilkynnti í dag að landamæri aðildaríkjanna yrðu opnuð fyrir ferðamönnum á morgun, 1. júlí, frá fjórtán löndum en Bandaríkjamenn verða ekki meðal þeirra sem fá inngöngu í Evrópu. Flestum Bandaríkjamönnum hefur verið neitað inngöngu í ríki Evrópusambandsins síðustu tvær vikurnar vegna mikillar aukningar kórónuveirutilfella í Bandaríkjunum.

Ferðamenn frá öðrum fjölmennum löndum, líkt og Rússlandi, Brasilíu og Indlandi munu þar að auki þurfa að bíða með það að ferðast til Evrópusambandsríkja. Ríki Evrópu hafa hægt og rólega létt á takmörkunum sem sett voru á þegar faraldurinn skall á og eru mörg ríki suður Evrópu, þar á meðal Grikkland, Spánn og Ítalía, ólm í að opna aftur fyrir sólarþyrstum ferðalöngum til að blása lífi í ferðaþjónustuna.

Talið er að um 15 milljónir bandarískra ferðamanna ferðist ár hvert til Evrópu og að um 10 milljón Evrópubúa ferðist vestur um haf.

Ferðamenn frá eftirfarandi löndum munu geta heimsótt Evrópusambands- og Schengen ríkin frá og með morgundeginum: Alsír, Ástralíu, Kanada, Georgíu, Japan, Svartfjallalandi, Marokkó, Nýja-Sjálandi, Rúanda, Serbíu, Suður-Kóreu, Taílandi, Túnis og Úrúgvæ.

Þá munu kínverskir ferðamenn ekki fá inngöngu í Evrópu fyrr en Kína opnar landamæri sín fyrir evrópskum ferðamönnum. Þá er búist við því að löndin á lista Evrópusambandsins muni einnig leyfa ferðalöngum frá Evrópu að ferðast þangað.

Landalistinn verður uppfærður á fjórtán daga fresti, löndum verður bætt á listann og önnur tekin af honum eftir því hvað á við hverju sinni.

Tilfellum kórónuveiru hefur fjölgað gífurlega síðustu vikuna en Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf út tilskipun í mars sem bannar ferðamönnum frá Evrópu að koma inn í landið. Faraldurinn hefur verið á miklu undanhaldi í flestum ríkjum Evrópu undanfarnar vikur.


Tengdar fréttir

Enn verið að leggja loka­hönd á listann

Schengen-ríkin deila enn um hvaða lönd skuli vera á lista yfir þau ríki sem mega ferðast til svæðisins þegar ytri landamærin opna þann 1. júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×