Innlent

Borgar­stjóri og ráð­herra mæta á fund vel­ferðar­nefndar í fyrra­málið ef þing­störf setja ekki strik í reikninginn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg í síðustu viku er sá mannskæðasti í mörg ár.
Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg í síðustu viku er sá mannskæðasti í mörg ár. Vísir/Vilhelm

Borgarstjóri og félagsmálaráðherra eru meðal þeirra sem kallaðir verða á fund velferðarnefndar vegna brunans á Bræðraborgarstíg. Samhljómur er meðal nefndarmanna um að taka málið til skoðunar og meta hvort tilefni sé til lagabreytingar.

Umræða um slæman aðbúnað verkafólks, brunavarnir og um hvort eftirliti hins opinbera sé ábótavant hefur verið hávær í kjölfar eldsvoðans á Bræðraborgarstíg á fimmtudaginn þar sem þrír létu lífið og fleiri slösuðust.

„Við stefnum á fund á morgun, ég vona að þingfundahald leyfi það, þar sem við höfum boðað á fund okkar ráðherra og borgarstjóra, bæjarstjóra í Hafnarfirði sem að fer fyrir ákveðnum hópi og fleiri og fleiri. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, fulltrúa verkalýðshreyfinga,“segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er formaður velferðarnefndar Alþingis.Vísir

Hugsanlega sé tilefni til að gera lagabreytingar. „Það er eitt sem að maður sér glögglega og það er þessi heimild til eftirlitsaðila til að fara inn í húsnæði sem ekki er atvinnuhúsnæði, það er að segja sem ekki er gistiheimili eða þess háttar. Þá heimild vantar. Það vantar heimild fyrir slökkviliðið til þess að fara inn og skoða brunavarnir ef um er að ræða bara hefðbundið leiguhúsnæði, við þurfum einhvern veginn að finna út hvort við getum lagað það,“segir Helga Vala.

Slíkar lagabreytingar þyrftu þó góðan tíma í undirbúningi og ætti ekki að afgreiða með hraði.

„Ég held að það sé mjög óráðlegt að fara í víðtækar lagabreytingar á nokkrum klukkutímum,“segir Helga Vala, spurð hvort komi til greina að reyna að keyra einhverjar breytingar í gegn áður en þing fer í sumarfrí.

Allir séu þó sammála um að velta þurfi við hverjum steini og skoða hvað betur megi fara.

„Það var algjör samhljómur í morgun á fundi nefndarinnar þegar við tókum ákvörðun um að halda þennan fund á morgun, allir flokkar sammála um að við ættum að byrja strax og skoða málið,“ segir Helga Vala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×