Innlent

Senda sýnatökuteymi fyrir Norrænu til Danmerkur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Norræna við höfn í Seyðisfirði.
Norræna við höfn í Seyðisfirði. Vísir/Jóhann K.

Stefnt er að því að senda sýnatökuteymi til móts við Norrænu í Hirtshals í Danmörku fyrir næstu ferð hennar til Færeyja og Íslands. Ferjan er komin á sumaráætlun og liggur því einungis við höfn í Seyðisfirði í tvo á hálfan tíma.

Vegna þess er sýnataka um borð í skipinu í höfn mjög erfið auk þess sem gert er ráð fyrir að farþegum fjölgi og er því leitað leiða til að auðvelda sýnatöku.

Frá því að Norræna kom fyrst til hafnar í Seyðisfirði eftir að ferðatakmörkunum var létt hefur sýnataka farið fram í höfn í Seyðisfirði. Til stóð, þegar ferjan kom hingað þann 16. júní síðastliðinn, að senda skimunarteymi til Færeyja með flugvél Landhelgisgæslunnar svo að hægt væri að skima um borð í ferjunni.

Ekkert varð þó úr því en fresta þurfti ferðinni, fyrst vegna svartaþoku sem lá yfir Færeyjum en svo þurfti að hætta við ferðina vegna tæknilegra vandamála hjá vél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF. Síðan þá hefur skimunin farið fram á Seyðisfirði.

Norræna kom til hafnar nú síðast í morgun og af þeim 460 farþegum um borð fóru um 300 í sýnatöku vegna kórónuveirunnar. Hinir þurftu ekki að fara í sýnatöku þar sem þeir höfðu ekki dvalið í landi er telst til áhættusvæða síðustu fjórtán daga.

Sýnatakan gekk vel að sögn lögreglunnar á Austurlandi. Sýnatakan hófst fljótlega eftir komu hennar klukkan níu og var að mestu lokið fyrir hádegi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×