Innlent

Komu upp nýju að­komu­tákni á Arnar­nes­hálsi

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Björg Fenger, varaforseti bæjarstjórnar, tóku niður gamla merkið, sem staðið hefur um áraraðir á sama stað. Á myndinni til vinstri má sjá nýja verkið.
Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Björg Fenger, varaforseti bæjarstjórnar, tóku niður gamla merkið, sem staðið hefur um áraraðir á sama stað. Á myndinni til vinstri má sjá nýja verkið. Garðabær

Nýju aðkomutákni Garðabæjar hefur verið sett upp vestan megin við Hafnarfjarðarveg á Arnarneshálsi.

Verkið var vígt í gær og er fléttað saman úr þremur jafnstórum flötum römmum í þrívítt verk.

Í tilkynningu frá bænum segir að aðkomutáknið hafi verið valið í hugmyndasamkeppni Garðabæjar og Hönnunarmiðstöðvar Íslands á meðal hönnuða og myndlistarmanna árið 2016 þegar Garðabær fagnaði 40 ára kaupstaðarafmæli.

„Vinningstillagan sem nú er risin kom frá Teiknistofunni Tröð og var unnin af Sigríði Magnúsdóttur arkitekt FAÍ, Hans-Olav Andersen arkitekt FAÍ, Magnúsi Andersen ljósmyndara og Nínu Solveigu Andersen. VSÓ sá um hönnun og ráðgjöf varðandi verkþætti við táknið sjálft, vegrið, jarðvinnu, burðarvirki og rafmagn, Loftorka sá um undirstöður og uppsetningu á verkinu á staðnum og Járnsmiðja Óðins smíðaði burðarvirkið í verkinu,“ segir í tilkynningunni

Stafirnir verða upplýstir sem og táknið sjálft og því sést það vel þegar keyrt er inn í Garðabæ eftir Hafnarfjarðarvegi. Á næstu misserum verður aðkomutákninu komið upp í mismunandi stærðum á fleiri stöðum í bænum, að því er fram kemur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×