Erlent

Frakkar og Þjóðverjar deila ekki áhuga Trump á að fá Rússa inn í G7

Kjartan Kjartansson skrifar
Macron á fjarfundi með öðrum G7-leiðtogum um kórónuveirufaraldurinn í apríl. Til stendur að hópurinn komi saman í Bandaríkjunum í september en Trump Bandaríkjaforseti vill fá Rússland aftur að borðinu þar.
Macron á fjarfundi með öðrum G7-leiðtogum um kórónuveirufaraldurinn í apríl. Til stendur að hópurinn komi saman í Bandaríkjunum í september en Trump Bandaríkjaforseti vill fá Rússland aftur að borðinu þar. Vísir/EPA

Hvorki þýsk né frönsk stjórnvöld eru spennt fyrir því að bjóða Rússum aftur inn í hóp stærstu iðnríkja heims sem kalla sig G7. Donald Trump Bandaríkjaforseti segir það „heilbrigða skynsemi“ að leyfa Rússum að slást aftur í hópinn.

Rússum var sparkað úr því sem þá var kallað G8-hópnum eftir að þeir innlimuðu Krímskaga árið 2014. Trump forseti hefur undanfarið talað fyrir því að bjóða þá aftur velkomna í hópinn, meðal annars á hitafundi G7-ríkjanna sem hann hleypti í bál og brand árið 2018.

„Ég efast um að það sé vit í því að búinn til nýjan bráðabirgðahóp,“ sagði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, um hugmyndina í dag og bætti við að í ljós þyrfti að koma hvenær rétti tíminn væri til að hleypa Rússum aftur inn.

Svipuðu skilaboð koma frá skrifstofu Emmanuel Macron, forseta Frakklands. Reuters-fréttastofan hefur eftir háttsettum embættismanni þaðan að Rússum hafi verið vísað úr samstarfinu af gildri ástæðu.

„Við teljum ekki að þær aðstæður hafi breyst í dag,“ segir embættismaðurinn sem sagði þó að finna yrði farveg til þess að hafa samskipti við rússnesk stjórnvöld.

Trump, sem verður gestgjafi fundar G7-ríkjanna síðar á þessu ári, sagði í dag að það lægi beinast við að bjóða Vladímír Pútín Rússlandsforseta aftur að borðinu. Þannig væri auðveldast að leysta ýmis mál.


Tengdar fréttir

Frestar fundi G7 aftur

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í morgun að hann myndi þrátt fyrir allt fresta fundi G7 ríkjanna í ár fram í september. Trump sagði í síðustu viku að líklegast yrði fundurinn haldinn í Washington, þar sem leiðtogarnir myndu hittast augliti til auglits.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×