Innlent

Heilbrigðisráðherra boðar til blaðamannafundar til að kynna næstu aðgerðir vegna veirunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, kynnir næstu skref varðandi aðgerði vegna kórónuveirunnar á blaðamannafundi í dag klukkan 11.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, kynnir næstu skref varðandi aðgerði vegna kórónuveirunnar á blaðamannafundi í dag klukkan 11. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur boðað til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum klukkan ellefu í dag að loknum ríkisstjórnarfundi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar segir að á fundinum verði kynnt næstu skref varðandi aðgerðir vegna kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum Covid-19.

Vísir mun sýna beint frá fundinum og sömuleiðis verður hægt að horfa á fundinn á Stöð 3.

Þau Alma Möller, landlæknir, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, verða einnig á fundinum.

Ekki kemur neitt nánar fram um efni fundarins en undanfarið hefur verið mikið rætt um það hvort og þá hvenær samkomubann verði sett á hér á landi vegna útbreiðslu veirunnar.

Víðir sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að áætlanir um samkomubann yrðu kynntar fljótlega.

Það er heilbrigðisráðherra sem að endingu tekur ákvörðun um samkomubann en það er gert í samráði við sóttvarnalækni.

Fundurinn hefst eins og áður segir klukkan 11 og er í beinni útsendingu hér á Vísi. Á sama tíma hefst þingfundur, að öðru óbreyttu, þar sem ríkisstjórnin leggur fram frumvarp um frestun gjalddaga hjá fyrirtækjum í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×