Fótbolti

Yfir­lýsing frá Gróttu: Full­yrðingarnar frá­leitar og eiga ekki við nein rök að styðjast

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það gustar um Seltjarnanesið þessa daganna.
Það gustar um Seltjarnanesið þessa daganna. mynd/fésbókarsíða Gróttu

Aðalstjórn Gróttu sendi í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem ummælum Kristjáns Daða Finnbjörnssonar, fyrrum þjálfara í yngri flokkum félagsins, er vísað til föðurhúsanna.

Kristján Daði var í viðtali við vefsíðuna 433.is í morgun þar sem hann greindi frá því að honum hafi verið vikið úr starfi eftir að börn stjórnarmanna í félaginu hafi ekki verið valinn í A-liðið.

Þar segist hann einnig íhuga að lögsækja félagið til þess að bjarga mannorði sínu en honum var sagt upp hjá félaginu í janúar eftir að hafa þjálfað 4. til 6. flokk félagsins frá því haustið 2019.

Kristjáni fannst á sér brotið með uppsögninni og ræddi það í viðtali við Hörð Snævar Jónsson á 433 en nú hefur Grótta sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið er alls ekki sátt með ummæli Kristjáns.

„Fullyrðingar Kristjáns Daða Finnbjörnssonar í fjölmiðlum um að liðsval í yngri flokkum hafi haft áhrif á starfslok hans hjá knattspyrnudeild Gróttu eru fráleitar og eiga ekki við nein rök að styðjast. Það vita þeir sem kynni hafa af yngri flokka starfi hjá knattspyrnudeild Gróttu,“ segir í yfirlýsingunni.

„Eina ástæðan fyrir brotthvarfi Kristjáns eru vinnubrögð hans sjálfs og ófagleg framkoma gagnvart iðkendum, starfsfólki og stjórn barna- og unglingaráðs. Það er auk þess mjög ámælisvert að barna- og unglingaþjálfari skuli tjá sig í fjölmiðlum um málefni ólögráða iðkenda eins og gert hefur verið. Félagið hefur greitt Kristjáni að fullu fyrir þau störf sem hann hefur unnið fyrir félagið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×