Erlent

Kórónuveira greindist í stærstu flóttamannabúðum í heimi

Kjartan Kjartansson skrifar
Byggðin er þétt í flóttamannabúðunum í Cox Bazar í Bangladess. Um milljón róhingja sem komu frá Búrma hafast þar við.
Byggðin er þétt í flóttamannabúðunum í Cox Bazar í Bangladess. Um milljón róhingja sem komu frá Búrma hafast þar við. Vísir/EPA

Tveir róhingjar í stærstu flóttamannabúðum í heimi í Bangladess greindust smitaðir af nýju afbrigði kórónuveiru sem veldur Covid-19-sjúkdómnum. Um milljón róhingjar hafast við í búðunum við þröngan kost.

Flóttamennirnir tveir voru settir í einangrun en um 1.900 til viðbótar hafa einnig verið einangraðir á meðan beðið er niðurstöðu sýna. Útgöngubann hefur verið í gildi í búðunum frá því um miðjan mars.

Hjálparsamtök hafa varað við mögulegum áhrifum faraldursins á róhingja í búðunum þar sem þeir búa þétt og hafa takmarkaðan aðgang að hreinu vatni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Áætlað er að á bilinu 40.000 til 70.000 manns búi á hverjum ferkílómetra í búðunum. Það er um 1,6 sinnum þéttari byggð en í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess þar sem veiran breiddist hratt út fyrr á þessu ári.

Shamim Jhana, heilbrigðismálastjóri samtakanna Björgum börnunum í Bangladess, segir að nú þegar veiran hefur greinst í flóttamannabúðunum sé raunveruleg hætta á að þúsundir flóttamanna eigi eftir að láta lífið.

„Faraldurinn gæti fært Bangladess aftur um áratugi,“ segir hann.

Róhingjar í Búrma byrjuðu að flýja landið í hrönnum yfir landamærin að Bangladess vegna ofsókna í ágúst árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×