Erlent

ESB hefur áhyggjur af póstkosningu í Póllandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Vera Jourova, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB yfir gildum og gegnsæi.
Vera Jourova, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB yfir gildum og gegnsæi. Vísir/EPA

Varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segist hafa áhyggjur af lögmæti og áreiðanleika forsetakosninga í Póllandi í næsta mánuði eftir að pólska þingið samþykkti að fresta ekki kosningunum vegna kórónuveirufaraldursins heldur halda póstkosningu. Hann hvetur Evrópuríki til að gera ekki grundvallarbreytingar á kosningalögum innan við ári fyrir kosningar.

Ríkisstjórn Laga og réttlætis (PiS) hefur verið gagnrýnd fyrir að setja pólitíska hagsmuni sína ofar lýðheilsu í tengslum við forsetakosningarnar sem fara fram 10. maí. Með sigri í kosningunum gæti flokkurinn staðfest umdeildar breytingar á réttarkerfi Póllands sem ESB hefur sagt stangast á við gildi réttarríkisins. Andrzej Duda, sitjandi forseti og bandamaður PiS mælist nú með forskot í skoðanakönnunum.

Vera Jourova, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB yfir gildum og gegnsæi, segist hafa áhyggjur af því hvort að kosningarnar í Póllandi verði frjálsar og sanngjarna, af gæði kosninganna, lögmæti þeirra og hvort þær standist stjórnarskrá.

„Póstkosning er gríðarleg breyting og þetta er í fyrsta skipti sem slík aðferð er notuð og fólk er ekki vant henni,“ segir Jourova sem bendir á að ráðherraráð ESB hafi mælt með því að aðildarríkin krukki ekki í grundvallaratriðum kosningalaga á kosningaári.

Hún hefur jafnframt verið gagnrýnin á breytingar PiS á réttarkerfinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Evrópusambandið heldur því fram að lagabreytingunum sé ætlað að múlbinda dómara sem varpa fram efasemdum um tilnefningar nýrra dómara á grundvelli nýju laganna. Jourova lýsti breytingum pólsku ríkisstjórnarinnar á dómskerfinu sem „eyðileggingu“ en ekki umbótum fyrr á þessu ári.


Tengdar fréttir

Taka lýðræðið úr sambandi í skjóli faraldursins

Eftirlit með símanotkun almennra borgara og þungir fangelsisdómar fyrir að hunsa útgöngubann er á meðal harðra aðgerða sem popúlískir þjóðarleiðtogar í Austur-Evrópuríkjum og víðar hafa gripið til vegna kórónuveiruheimsfaraldursins. Sumir þeirra eru sakaðir um að notfæra sér neyðarástandið til þess að sanka að sér völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×