Fótbolti

Liðslæknir Stade Reims svipti sig lífi eftir að hann sýktist af kórónuveirunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bernard Gonzalez var minnst á samfélagsmiðlum Stade de Reims.
Bernard Gonzalez var minnst á samfélagsmiðlum Stade de Reims. Samsett Mynd

Hræðilegar fréttir frá Frakklandi þar sem læknir liðs í frönsku fótboltadeildinni tók afdrifaríka ákvörðun eftir að hafa fengið COVID-19 sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur.

Stade Reims staðfesti í gær að læknir fótboltaliðsins, Bernard Gonzalez, væri látinn en fréttir frá Frakklandi herma jafnframt að hann hafi fallið fyrir eigin hendi.

Franska stórblaðið Le Parisien fjallar meðal annars um það að hinn sextugi Bernard Gonzalez hafi svipt sig lífi og í bréfi sem hann skildi eftir þá komu fram tengslin á milli þeirrar ákvörðunar og því að hafa veikst af COVID-19 sjúkdómnum.

Bernard Gonzalez var búinn að vera læknir Stade Reims liðsins í tuttugu ár.

„Hann var læknir félagsins. Mikill fagmaður, virtur og metinn af öllum. Hugur minn er hjá foreldrum hans, eiginkonu og hans fjölskyldu,“ sagði Arnaud Robinet, borgarstjóri Reims.

„Hann er aukafórnarlamb Covid-19. Ég veit að hann skildi eftir bréf til að útskýra ákvörðun sína. Ég læt sem ég viti ekki af því sem stóð þar,“ sagði Arnaud Robinet.

„Ég finn engin orð og er mjög brugðið. Þessi faraldur hefur hitt Stade Reims í hjartað því við vorum að missa þekktan einstakling í Reims og mikinn fagmann,“ sagði Jean-Pierre Caillot forseti félagsins.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×