Fótbolti

Meistaradeildinni verður að vera lokið 3. ágúst

Sindri Sverrisson skrifar
Liverpool er ríkjandi Evrópumeistari en féll úr keppninni í ár í 16-liða úrslitum. Enn á eftir að útkljá fjögur einvígi af átta í 16-liða úrslitunum.
Liverpool er ríkjandi Evrópumeistari en féll úr keppninni í ár í 16-liða úrslitum. Enn á eftir að útkljá fjögur einvígi af átta í 16-liða úrslitunum. VÍSIR/EPA

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, segir að þó að ýmsar leiðir séu skoðaðar til þess að ljúka leiktíðinni í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni í fótbolta þá sé ljóst að keppni verði að vera lokið 3. ágúst.

Þetta sagði Ceferin í viðtali við ZDF í Þýskalandi.

„Við erum með nokkrar leiðir í huga þegar kemur að því að byrja aftur leik í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni. Það gæti gerst í maí, júní, júlí… eða þá að það verður ekki af því. Sá möguleiki er einnig til skoðunar. Við erum með vinnuhóp að störfum en þetta veltur líka á því að yfirvöld leyfi okkur að spila,“ sagði Ceferin.

Hann sagði koma til greina að spila eftir sama fyrirkomulagi og venjulega, eða að spila staka leiki á hverju stigi í stað tveggja leikja fyrirkomulagsins. Þá gæti farið svo að spiluð verði fjögurra eða átta liða úrslitakeppni á skömmum tíma í einni borg.

„Öllu verður að vera lokið 3. ágúst, bæði í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni. Við getum ekki haldið áfram fram í september eða október. Það eru margir kostir í stöðunni. Þetta eru fordæmalausar aðstæður og við verðum að vera sveigjanleg,“ sagði Ceferin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×