Erlent

Óttast að smit berist í flóttamannabúðir Róhingja

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Golforaj Begum, 54 ára kona sem býr í flóttmannabúðum Róhingja í Bangladess.
Golforaj Begum, 54 ára kona sem býr í flóttmannabúðum Róhingja í Bangladess. AP /Suzauddin Rubel

Yfirvöld í Bangladess hafa þungar áhyggjur af því að kórónuveiran berist í flóttamannabúðir Róhingja í landinu.

Um ein milljón Róhingja býr afar þétt og við slæmar aðstæður í flóttamannabúðum í Bangladess. Þetta er fólk sem flúði ofsóknir og meint þjóðarmorð í grannríkinu Mjanmar.

54 tilfelli hafa greinst í Bangladess til þessa og segja embættismenn að búið sé að byggja einangrunarsvæði með hundrað pláss í flóttamannabúðunum.

„Bann hefur verið sett á allar heimsóknir útlendinga. Flóttamönnunum er ráðlagt að reyna að halda daglegri rútínu eins og hægt er. Óháð félagasamtök og stofnanir eru að beina skilaboðum til Róhingja á þeirra móðurmáli um faraldurinn. Við höfum byggt 100 rúma einangrunardeild á staðnum og erum að reyna að koma upp 200 rúma spítala í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina,“ sagði embættismaðurinn Mohammed Kamal Hossain við AP.

Flóttamennirnir sjálfir hafa þó nokkrar áhyggjur og reyna að fylgja tilmælum yfirvalda.

„Stofnanirnar hérna hafa upplýst okkur um að hósti, kvef og verkir í hálsi séu á meðal einkenna og við erum á varðbergi gagnvart þessum einkennum. Okkur var líka sagt að fara ekki í annarra manna tjöld, halda tveggja metra fjarlægð, forðast mannmergð og þvo hendur vel,“ sagði flóttamaðurinn Golforaj Begum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×