Erlent

Manafort færður í stofufangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump.
Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump. AP/Seth Wenig

Paul Manafort, fyrrverandi framkvæmdastjóra forsetaframboðs Donald Trump, hefur verið færður í stofufangelsi vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar. Hann var dæmdur í sjö ára fangelsi vegna Rússarannsóknarinnar svokölluðu en mun sitja út refsingu sína í stofufangelsi.

AP fréttaveitan segir að lögmenn Manafort hafi leitað til fangelsisyfirvalda og farið fram á að Manafort yrði færður í stofufangelsi. Þá vegna þess hve viðkvæmur hann er gagnvart Covid-19 sökum aldurs og undirliggjandi veikinda. Manafort var fluttur á sjúkrahús í desember vegna hjartaveikinda. Hann er 71 árs gamall.

Manafort var meðal þeirra fyrstu sem voru ákærðir í Rússarannsókninni. Hann var sakfelldur árið 2018 og játaði brot í öðru máli í Washington DC. Hann var meðal annars dæmdur fyrir banka- og skattsvik.

Seinna málið sneri að stöfum hans fyrir stjórnmálaflokka og menn í Úkraínu sem hann gerði ekki grein fyrir.

Minnst 2.818 fangar í alríkisfangelsum Bandaríkjanna hafa greinst með Covid-19 og 2652 starfsmenn fangelsisyfirvalda. Fimmtíu fangar hafa dáið. Frá 26. mars hafa rúmlega 2.400 fangar verið færðir í stofufangelsi.

Búið er að samþykkja beiðnir frá 1.200 föngum til viðbótar.

Enginn hefur þó greinst með Covid-19 í sjúkrahúsinu sem Manafort hefur afplánað í.

Michael Cohen, fyrrverandi einkalögmaður Trump til margra ára, hefur einnig verið færður í stofufangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×