Erlent

Starfandi for­seti og æðsti her­foringi Alsír látinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ahmed Gaid Salah tók við forsetaembættinu þegar Abdelaziz Bouteflika steig til hliðar eftir 20 ár við valdastól.
Ahmed Gaid Salah tók við forsetaembættinu þegar Abdelaziz Bouteflika steig til hliðar eftir 20 ár við valdastól. getty/ Billal Bensalem

Alsírski hershöfðinginn Ahmed Gaid Salah, sem er þekktur fyrir að hafa hvatt fyrrverandi forseta Alsír, Abdelaziz Bouteflika að segja af sér, er látinn 79 ára að aldri. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Salah var einn síðasti eftirlifandi hermannanna sem börðust í sjálfstæðisstríðinu við Frakka, sem stóð yfir 1954 til 1962, og sat enn við valdastól. Engar frekari upplýsingar hafa verið gefnar um dauða hans.

Bouteflika, fyrrverandi forseti Alsír, hafði setið sem forseti frá 1999 þar til í apríl á þessu ári eftir fjöldamótmæli og tók Salah við sem forseti tímabundið af honum. Stjórnarandstaðan var mjög mótfallin þessum valdaskiptum og hefur krafist þess að allir þeir sem voru valdamenn í tíð Bouteflika segi af sér.

Hershöfðinginn Said Chengriha hefur tekið við sem starfandi forseti og hefur þriggja daga þjóðarsorg verið lýst yfir. Salah var einn aðalskipuleggjandi forsetakosninganna sem haldnar voru 11. desember síðastliðinn en stjórnarandstaðan sniðgekk. Hann lýsti því yfir að ef kosningarnar yrðu ekki haldnar myndi landið leysast upp í óreiðu.

Fimm frambjóðendur börðust um embættið í kosningunum en þeir voru allir nánir Bouteflika. Abdelmadjid Tebboune, fyrrverandi starfsmaður í opinberri þjónustu, bar sigur úr bítum en hann hefur á samfélagsmiðlum verið kallaður „hinn útvaldi“ vegna náins sambands við Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×