Innlent

Aðflug að Hvassahrauni færi hvergi yfir þéttbýli

Kristján Már Unnarsson skrifar
Aðflugsferlar yfir Faxaflóa, miðað við hugmynd ráðgjafanna Goldberg Partners um legu flugbrauta.
Aðflugsferlar yfir Faxaflóa, miðað við hugmynd ráðgjafanna Goldberg Partners um legu flugbrauta. Grafík/Stöð 2, Hafsteinn Þórðarson.
Forseti bæjarstjórnar Voga segir að flugvöllur í Hvassahrauni yrði lyftistöng fyrir svæðið og hvetur Suðurnesjamenn til að taka hugmyndinni fagnandi. Aðflug að vellinum myndi hvergi fara yfir byggð. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Flugvallarstæðið er hugsað á sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Voga.

Ingþór Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga, í Hvassahrauni í dagStöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Jú, þetta yrði að stærstum hluta í okkar sveitarfélagi. Okkur líst bara vel á það. En ég vil bara árétta það líka að það er bara verið að kanna þetta,“ segir Ingþór Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga. 

Framundan sé vinna næstu tvö ár við að kanna veðurskilyrði og aðra þætti og segir Ingþór sveitarstjórn Voga rólega gagnvart hugmyndinni. 

„Svo bara kemur það í ljós hvort það verður flugvöllur hér eða ekki. En við erum vissulega bara jákvæð yfir því. Þetta er bara lyftistöng fyrir, - þetta er eitt atvinnusvæði sem er hér á Suðurnesjum, og við eigum bara að taka því fagnandi,“ segir Ingþór.

Séð yfir Hvassahraun í átt til Hafnarfjarðar. Mörk sveitarfélaganna eru við stöpulinn, sem sjá má í vegkantinum hægra megin.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Erlendis skapast deilur um flugvelli helst ef þeir valda ónæði gagnvart nærliggjandi íbúðabyggð. Aðflug að Hvassahrauni færi hins vegar hvergi yfir þéttbýli. Yfir landi færi aðflug yfir hraun en annars yfir hafi. 

„Ég held að aðflugsleiðir hér fari ekki yfir neina byggð að neinu ráði. Svo er bara fínasta byggingarland hérna vestan við okkur. Það held ég að verði ekki nein truflun af því,“ segir Ingþór.

Svona gæti innanlands- og millilandaflugvöllur litið út í Hvassahrauni. Fjær má sjá álverið í Straumsvík og byggðina í Hafnarfirði. Stefna flugbrauta er sýnd miðað við niðurstöður sem þegar liggja fyrir úr veðurfarsrannsóknum.Mynd/Goldberg Partners International.
Hann kveðst hafa heyrt af andstöðu í nágrannasveitarfélögum á Suðurnesjum. 

„Ég hef nú sagt það áður og vil bara biðla til sveitarstjórnarmanna hér á Suðurnesjum að anda bara aðeins með nefinu og sjá hvað kemur út úr þessari vinnu, sem þessi nefnd er að fara í."

Séð yfir Hvassahraun í átt til Suðurnesja.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Kannski er þetta bara alveg ómöguleg staðsetning og þá kemur það bara í ljós. Ef þetta er bara góð staðsetning fyrir land og þjóð, þá er það bara þannig. Við förum yfir þann læk þegar við komum að honum,“ segir forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

 


Tengdar fréttir

Icelandair lagt í mikla vinnu við að skoða Hvassahraun

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að þegar horft sé áratugi fram í tímann sé það engin spurning að hagkvæmt sé fyrir þjóðfélagið og ferðaþjónustuna að hafa einn sameiginlegan innanlands- og millilandaflugvöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×