Erlent

Tveir látnir eftir árásina í London

Andri Eysteinsson skrifar
Árásarmaðurinn var stöðvaður á London Bridge.
Árásarmaðurinn var stöðvaður á London Bridge. Getty/Barcroft Media
Tveir létust og þrír til viðbótar slösuðust eftir hnífaárás á London Bridge í bresku höfuðborginni. Lögreglan ytra hefur staðfest að maður hafi, vopnaður hnífi og íklæddur gervi-sprengjuvesti hafi ráðist að vegfarendum. Atvikinu hefur verið lýst sem hryðjuverki.

Árásarmaðurinn, sem skotinn var til bana af lögreglu, hafði setið inni og hafði verið sakfelldur af ákæru vegna tengsla við hryðjuverk samkvæmt heimildum BBC. Tugir urðu vitni að atvikinu og á myndböndum frá London Bridge sést hópur fólks ráðast að manninum og var hann stöðvaður.

Stjórnmálaleiðtogar Bretlands, Boris Johnson forsætisráðherra og Jeremy Corbyn leiðtogi stjórnarandstöðunnar hafa báðir hrósað viðbrögðum almennings í málinu.

Athygli hefur vakið að einn þeirra sem mætti árásarmanninum á brúnni hélt á því sem virðist í fyrstu vera löng hvít stöng. Í ljós hefur komið að um er að ræða náhvalstönn sem aðilinn fjarlægði úr Fishmonger‘s Hall byggingunni í nágrenni London Bridge og hugðist beita gegn árásarmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×