Innlent

Sjálfgert barnaníðsefni kemur sífellt oftar á borð lögreglu hér á landi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Sjálfgert barnaníðsefni, þar sem íslensk börn senda óprúttnum aðilum kynferðislegt myndefni af sér, kemur sífellt oftar á borð lögreglu hér á landi. Í kjölfarið er börnum oft hótað birtingu sendi þau ekki grófara efni. Dæmi eru um sjálfsvíg barna í Evrópu af þessum sökum. 

Barnaníð á netinu er þar sérstaklega gert að umtalsefni í nýútkominni skýrslu Europol þar sem kastljósinu er beint að netglæpum. Varað er sérstaklega við sjálfgerðu barnaníðsefni. Daði Gunnarsson, rannsóknarlögreglumaður, segir að þetta eigi einnig við á Íslandi.

„Við höfum verið að sjá í auknum mæli þetta sjálfgerða barnaníðsefni. Þar að segja að börn eru sjálf að taka af sér myndir og senda þá á einhvern félaga eða einhvern sem þeir halda að sé félagi en er fullorðinn einstaklingur og er þá að sækja sér þarna myndefni,“ segir Daði Gunnarsson, rannsóknarlögreglumaður í netglæpadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Brotamaðurinn þykist þannig vera einhver annar, jafnaldri barnsins, og kynnist því í gegn um samfélagsmiðla eða leiki á netinu. „Þeir fá traust hjá börnunum en svo reyna þeir að fá eitthvað annað frá þeim um leið og það er komið. Fara að ganga lengra og lengra og lengra og fá frekara efni. Byrjar kannski sem eitthvað saklaust efni en svo kemur hótunin, ef þú sendir mér ekki grófara efni þá birti ég þetta efni,“ segir Daði. 

Hótanirnar hafi oft alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola í för með sér.

„Eins og kemur fram í skýrslunni þá hefur þetta jafnvel orðið þess valdandi að börn hafa verið að fremja sjálfsvíg.“

Daði hefur því miklar áhyggjur af þróuninni. „Þetta er mjög alvarleg þróun og þetta er eitthvað sem fólk þarf að ræða við börnin sín og börn þurfa að vera meðvituð um. Það byrjar oft um ellefu ára aldur sem þyrfi að fara ræða þessi mál,“ segir Daði.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×