Innlent

Sveitarstjórum norðurslóða tryggður sameiginlegur vettvangur

Sveinn Arnarsson skrifar
Ásthildur Sturludóttir við undirritun í gær.
Ásthildur Sturludóttir við undirritun í gær. Fréttablaðið/Sveinn
Borgar- og bæjarstjórar níu sveitarfélaga á norðurslóðum undirrituðu við hátíðlega athöfn á Akureyri í gær stofnskjal Arctic Mayors Forum og formfestu þar með samtal og samstarf sveitarstjórnarstigsins á norðurslóðum.

Óformlegt samtal sveitarstjórnarmanna á norðurslóðum hefur verið í gangi um nokkurt skeið og talað hefur verið fyrir mikilvægi þess að sveitarstjórnir, líkt og ríkisstjórnir á norðurslóðum, eigi sér stað til skrafs og ráðagerða.

Hér á landi hefur Ásthildur Sturlu­dóttir, bæjarstjóri á Akureyri, unnið að því að formfesta þetta samtal við kollega sína. Hún segir afar mikilvægt að sveitarstjórnir geti rætt sín á milli um það sem skiptir íbúa á svæðinu máli.

„Við höfum orðið þess áskynja eftir samtal okkar að það er margt sem sameinar okkur. Við teljum mikilvægt að við getum rætt saman þær sameiginlegu áskoranir og tækifæri sem er að finna á norðurslóðum. Því skiptir þessi undirritun miklu máli og að til verði þessi vettvangur,“ segir Ásthildur.

Norðurskautsráðið hefur síðan árið 1996 verið vettvangur stjórnvalda á norðurslóðum til að ræða saman um sameiginleg málefni sem snerta svæðið.

Til þessa hefur hins vegar ekki verið til formfest samtal milli ríkjanna innan sveitarstjórnarstigsins.

Auk Ásthildar voru átta aðrir bæjar- og borgarstjórar samankomnir á Akureyri í gær, frá Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Kanada, Rússlandi og Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×