Innlent

Vill skoða að lækka fasteignaskatt á umhverfisvæn fyrirtæki

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. FBL/Sigtryggur Ari
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur, vill skoða þann möguleika að leggja lægri fasteignaskatt á þau fyrirtæki í borginni sem eru með lítið kolefnisspor. Líf greinir frá þessari hugmynd sinni á Twitter í dag en hún segist í samtali við Vísi ekki vita hvort þetta sé hægt en hún hyggist skoða þennan möguleika.

„Ég fékk bara þessa hugmynd, hvernig við getum verið hvati í að ráðast á loftslagsbreytingar vegna þess að við þurfum að gera það á svo mörgum stöðum og með svo mörgum ráðum,“ segir Líf. Í færslu sinni á Twitter nefnir hún sem dæmi að þannig yrðu fasteignagjöld á „veganstaðnum lægri en á buffhúsinu.“

Líklega þurfi þó lagabreytingu til að slíkt gæti orðið að veruleika. „Ég bara fékk þessa flugu í hausinn og ég veit ekkert hvort þetta er hægt. Ég held að þú getir ekki mismunað fyrirtækjum án þess að hafa einhverja lagastoð fyrir því og ég held að hún sé ekki fyrir hendi. Það þyrfti kannski jafnvel bara að breyta lögunum til þess að ívilna þeim sem að sannarlega standa sig vel gagnvart umhverfinu,“ segir Líf.

Henni þyki ekki nema sanngjarnt að þeir borgi meira sem mengi meira. Það fjármagn væri að mati Lífar jafnvel hægt að nýta í nýsköpun, tæknilausnir eða innviði í þágu þess að stuðla að kolefnishlutlausu samfélagi og umhverfi. „Þetta er það áhugaverð pæling að ég ætla að kanna í fyllstu alvöru hvernig við getum, Reykjavíkurborg, notað þau tæki sem við höfum til þess einmitt að ná markmiðum okkar og þá jafnvel ívilna fyrir þá sem menga minna,“ segir Líf.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×