Erlent

Erdogan samþykkir að leggja niður vopnin tímabundið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, féllst á bón varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna um að gera hlé á innrás sinni í norðausturhluta Sýrlands í kvöld. Vopnahlé verður í 120 klukkustundir og er ætlast til þess að hersveitir Kúrda yfirgefi það svæði við landamæri ríkjanna sem Tyrkir hafa útnefnt öruggt.

„Í dag hafa Bandaríkin og Tyrkland sammælst um vopnahlé í Sýrlandi. Tyrkir munu gera hlé á aðgerðum sínum til þess að gefa Kúrdum svæði á því að yfirgefa hið örugga svæði,“ sagði varaforsetinn Mike Pence stuttu fyrir klukkan sex en hann kom til Tyrklands í morgun ásamt Mike Pompeo utanríkisráðherra og Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Þvinganir og harðjaxlabréf

Fundurinn með Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta var haldinn í skugga nýsamþykktra viðskiptaþvingana Bandaríkjanna gegn Tyrkjum auk þess að Bandaríkin hörfuðu frá Sýrlandi, rýmdu þannig fyrir innrásinni, eftir símtal Erdogans og Trumps.

Önnur samskipti forsetanna tveggja hafa þó verið til umræðu í dag. Bandaríska forsetaembættið staðfesti að bréf Trumps til Erdogans, sem birt var á Twitter, væri ósvikið en þar varaði hann Tyrkjann við því að haga sér eins og harðjaxl. Annars myndu Bandaríkin gjöreyðileggja tyrkneska hagkerfið og Erdogan yrði skráður í sögubækurnar sem djöfull.

 


Tengdar fréttir

Erdogan fundar í dag með Bandaríkjamönnum

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, mun funda í Ankara í dag með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pompeo utanríkisráðherra og Robert O´Brien þjóðaröryggisráðgjafa, þrátt fyrir að forsetinn hafi áður sagst aðeins vilja funda með Donald Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×