Erlent

Fórnarlömb skotárásarinnar í Las Vegas fá bætur frá hótelinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Jason McMillan lamaðist í skotárásinni í Las Vegas Hann felldi tár þegar MGM Resorts stefndi um þúsund eftirlifendum og fjölskyldum til að fyrirbyggja að þær krefðust bóta í fyrra.
Jason McMillan lamaðist í skotárásinni í Las Vegas Hann felldi tár þegar MGM Resorts stefndi um þúsund eftirlifendum og fjölskyldum til að fyrirbyggja að þær krefðust bóta í fyrra. Vísir/EPA
Hótelkeðjan MGM Resorts hefur fallist á að greiða fórnarlömbum mannskæðrar skotárásar í Las Vegas fyrir tveimur árum að minnsta kosti 735 milljónir dollara, jafnvirði um 91 milljarðs íslenskra króna í miskabætur. Fjöldamorðinginn skaut á fólk á tónleikum frá hótelherbergi í eigu keðjunnar.

Um 22.000 manns nutu sveitatónlistar á tónleikum á aðalgötunni í Las Vegas þegar karlmaður á sjötugsaldri lét byssukúlum rigna yfir mannfjöldann frá herbergi á Mandalay Bay-hótelinu 1. október árið 2017. Hann skaut 58 til bana og særði 422 til viðbótar áður en hann svipti sjálfan sig lífi. Það var umfangsmesta fjöldamorð einstaklings með skotvopni í sögu Bandaríkjanna.

Sáttin sem MGM Resorts hefur nú gert við fórnarlömbin er ekki játning fyrirtækisins á sök, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Keðjan hafði áður stefnt fórnarlömbunum, að því er virðist til þess að koma í veg fyrir málshöfðun þeirra.

„Við höfum alltaf talið að löng málaferli um þessi mál væru ekki neinum til hagsbóta,“ segir Jim Murren, stjórnarformaður MGM Resorts um sáttina.

Bæturnar sem keðjan greiðir út er talin nema allt frá 735 til 800 milljóna dollara, alltaf eftir því hversu margir krefjast bóta úr hendi hennar.

Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá voðaverkinu liggur enn ekki fyrir hvað morðingjanum gekk til.


Tengdar fréttir

Nýtt myndband varpar ljósi á hryllinginn í Las Vegas

Þrjár vikur eru liðnar frá mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna þegar Stephen Paddock drap 58 og særði hundruð í Las Vegas. Nýtt myndband varpar frekari ljósi á skotárásina sjálfa.

Ár frá árásinni í Las Vegas

Enn er ekki vitað af hverju Stpehen Craig Paddock hóf skothríð af 32 hæð Mandalay Bay hótelsins á þúsundir gesta tónlistarhátíðar hinu megin við götuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×