Erlent

Þingmaður segir af sér vegna innherjaviðskipta

Samúel Karl Ólason skrifar
Chris Collins, þingmaður Repúblikanaflokksins.
Chris Collins, þingmaður Repúblikanaflokksins. AP/Seth Wenig
Chris Collins, þingmaður Repúblikanaflokksins, hefur sagt af sér þingmennsku fyrir New York-ríki. Búist er við því að hann játi innherjaviðskipti fyrir dómi á morgun en hann er sakaður um að hafa lekið viðkvæmum upplýsingum um lyfjafyrirtæki til sonar síns. Afsögn hans mun taka gildi á morgun.

Samkvæmt AP fréttaveitunni stendur til að Collins játi sekt á morgun og á sonur hans að játa sekt á fimmtudaginn. Réttarhöldin yfir honum áttu ekki að hefjast fyrr en á næsta ári.



Þingmaðurinn var staðsettur í lautarferð Hvíta hússins í júní í fyrra þegar hann fékk tölvupóst frá forstjóra Innate Immunotherapeutics Ltd, um að nýtt lyf fyrirtækisins hefði ekki staðist tilraunir. Collins var þá stærsti hluthafi fyrirtækisins og sat í stjórn þess. Hann á að hafa hringt í son sinn hið snarasta og sagt honum hvað væri í vændum.

Sonurinn, hringdi í tengdaföður sinni, sem átti einnig hlut í fyrirtækinu, og þeir byrjuðu að selja hlutabréf sín næsta dag. Þannig komust þeir undan um 800 þúsund dala tapi, samkvæmt ákærunni. Collins sjálfur seldi ekki hlutabréf sín.

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, mun væntanlega boða til kosninga á næstunni en samkvæmt Politico eru litlar líkur á því að Repúblikanar missi sætið til Demókrata, sé mið tekið af skoðanakönnunum. Collins tókst til dæmis að ná endurkjöri í fyrra, þrátt fyrir að hann hefði verið ákærður á þeim tímapunkti.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×