Erlent

Bróðir Bou­teflika í steininn

Atli Ísleifsson skrifar
Bræðurnir Abdelaziz og Saïd Bouteflika árið 2009
Bræðurnir Abdelaziz og Saïd Bouteflika árið 2009 AP
Herdómstóll í Alsír hefur dæmt Saïd Bouteflika, bróður Abdelaziz Bouteflika, fyrrverandi forseta landsins, í fimmtán ára fangelsi.

Saïd Bouteflika er sagður hafa starfað sem raunverulegur forseti á bakvið tjöldin eftir að stóri bróðir hans fékk heilablæðingu árið 2013. Abdelaziz Bouteflika gegndi embætti forseta frá árinu 1999 og fram í apríl á þessu ári þegar hann var hrakinn frá völdum, en hann kom nær aldrei fram opinberlega eftir 2013.

Saïd Bouteflika, tveir fyrrverandi yfirmenn leyniþjónustu og flokksformaður voru dregnir fyrir réttinn og fengu þeir allir sama dóm fyrir að hafa „grafið undan valdi hersins“.

Fjöldi stjórnmálamanna og fólk úr heimi viðskipta í Alsír hafa verið sóttir til saka vegna spillingar eftir að Abdelaziz Bouteflika var hrakinn frá völdum í apríl.

Búið er að boða til forsetakosninga í landinu þann 12. desember næstkomandi. Mótmæli hafa verið tíð í landinu síðustu misserin þar sem umbóta er krafist og að nánir samstarfsmenn Bouteflika verði látnir taka pokann sinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×