Erlent

Hætta sölu á vin­sælu brjóst­sviða­lyfi vegna krabba­meins­valdandi efnis

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríski lyfsölurisinn CVS hefur bæst í hóp fyrirtækja sem selur ekki lengur brjóstsviðalyfið Zantac. Rannsókn stendur yfir mögulega krabbameinsvaldandi efni sem fannst í lyfinu og öðrum með sama virka efni. Zantac verið innkallað í Kanada og Frakklandi.

Heilbrigðis- og matvælayfirvöld í Bandaríkjunum og Evrópu tilkynntu um miðjan mánuðinn að þau væru að skoða nitrósamín, mögulega krabbameinsvaldandi efni, sem væri að finna í lyfjum sem innihalda virka efnið ranitidín, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Zantac hefur meðal annars verið selt á Íslandi. Samkvæmt lyfjaskrá inniheldur lyfið Asýran einnig ranitidín. Lyfin eiga að draga úr framleiðslu magasýru í sjúklingum með brjóstsviða og magasár.

Yfirvöld hafa sagt að engin bráð hætta sé á ferðum. Sjúklingar ættu ekki að hætta að taka lyfið strax heldur ráðfæra sig við lækni til að skrifa upp á lyf með öðru virku efni en ranitidín.

CVS tilkynnti engu að síður í gær að fyrirtækið ætla að hætta sölu á Zantac í verslunum sínum til að gæta fyllstu varkárni þrátt fyrir að lyfin hafi ekki verið innkölluð. Áður hafa aðrar stórar keðjur eins og Walgreens, Walmart og Rite Aid hætt sölu á lyfinu í Bandaríkjunum.

Í tilkynningu Lyfjastofnunar á föstudag sagði að evrópsk lyfjayfirvöld hafi farið fram á við markaðsleyfishafa að þeir endurmeti ferli alla lyfja sem innihalda efnasmíðuð virk efni til að meta áhættu á myndun svonefndra nítrósamína. Rannsóknir benda til þess að þau geti valdið krabbameini í mönnum. Áhættan á að þeir sem taka lyf sem nítrósamín hefur fundist í fái krabbamein sé talin lítil.

Nítrósamín fannst í allmörgum blóðþrýstingslyfjum í fyrra. Það leiddi til þess að mörg þeirra voru innkölluð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×