Erlent

Forsetaframbjóðandi tilkynnti tíst til FBI

Sylvía Hall skrifar
Beto O'Rourke.
Beto O'Rourke. Vísir/Getty
Beto O‘Rourke, einn frambjóðenda í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2020, olli töluverðum usla í kappræðum flokksins aðfaranótt föstudags. Þar sagðist hann ætla að gera öll sjálfvirk skotvopn upptæk og ítrekaði jafnframt þá skoðun á Twitter-síðu sinni.

„Já, ef þetta er skotvopn sem var hannað til þess að drepa fólk í bardaga,“ svaraði O‘Rourke aðspurður hvort hann ætlaði að gera fólki skylt að selja ríkinu slík skotvopn.





Skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum hefur löngum verið hitamál og hafa endurbætur á skotvopnalöggjöf mætt harðri gagnrýni frá þeim Bandaríkjamönnum sem trúa því að réttur þeirra til skotvopnaeignar sé eitthvað sem stjórnmálamenn eiga ekki að skipta sér af. Á það sérstaklega við í Texasríki, sem er heimaríki O'Rourke. 

Á meðal þeirra sem voru ósáttir við ummæli frambjóðandans var þingmaðurinn og repúblikaninn Briscoe Cain frá Texas sem birti færslu til O‘Rourke á Twitter-síðu sinni þar sem hann sagði riffillinn sinn vera „tilbúinn“ fyrir frambjóðandann.

„AR riffillinn minn er tilbúinn fyrir þig Robert Francis,“ skrifaði Cain til O‘Rourke, sem heitir fullu nafni Robert Francis. O‘Rourke svaraði færslunni með þeim orðum að þetta væri einfaldlega líflátshótun og Cain væri ekki hæfur til þess að eiga skotvopn.

Færslunni var eytt af Twitter eftir að hún var tilkynnt til stjórnenda síðunnar og var hún sögð brjóta gegn reglum sem kveða á um bann við ofbeldishótunum. Cain var ósáttur og kallaði frambjóðandann barn í kjölfarið, en færslan var tilkynnt til alríkislögreglunnar, FBI, í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×