Erlent

Segja brakið sanna að Íran hafi staðið að baki árásunum

Eiður Þór Árnason skrifar
Frá blaðamannafundi varnarmálaráðuneytisins í dag.
Frá blaðamannafundi varnarmálaráðuneytisins í dag. Vísir/AP
Varnarmálaráðuneyti Sádi-Arabíu segir að brak drónanna og eldflauganna sem skotið var á Abqaiq olíuvinnslustöðina þar í landi staðfesti að Íranir séu á bakvið árásirnar. Er því haldið fram að meðal þess sem fundist hafi í brakinu væri vængur af írönskum dróna, og að gögn sem á þeim hafi fundist bendi til þess að um íranska dróna sé að ræða. Stjórnvöld í Íran hafa áður hafnað öllum ásökunum um þátttöku sína í árásunum.

Árásirnar sem áttu sér stað um síðustu helgi drógu verulega úr olíuframleiðslu í Sádi-Arabíu og hefur leitt til hækkunar á olíuverði á mörkuðum. Árásin á Abqaiq olíuvinnslustöðina, sem er sögð vera sú stærsta í heimi, lamaði framleiðslu hennar og kynti undir spennu á svæðinu. Einnig var gerð árás á Khurais olíulindirnar.

Hútar, sem eiga í stríði við bandalagsher undir forystu Sáda í Jemen, hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum. Bandarísk stjórnvöld hafa aftur á móti sakað Írani um að standa að baki þeim og Sádar sömuleiðis. Því hafa stjórnvöld í Teheran alfarið hafnað.

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu halda því nú fram að sönnunargögn sanni þátttöku Írana. Col Turki al-Malki, talsmaður varnarmálaráðuneytis Sádi-Arabíu, sagði að að drónarnir átján og eldflaugarnar sjö sem notaðar voru í árásunum hafi komið úr átt sem útiloki að þær hafi átt uppruna sinn í Jemen líkt og Hútar hafi haldið fram.

Yfirvöldum hefur þó ekki enn tekist að staðfesta að vopnunum hafi verið skotið frá Íran.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×