Erlent

Árásarmaðurinn í Texas var nýbúinn að hringja í FBI

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Texas.
Lögregluþjónar að störfum í Texas. AP/Sue Ogrocki
Áður en Seth Aaron Ator skaut sjö manns til bana og særði 22 í Odessa í Texas um helgina, hringdi hann bæði í Neyðarlínuna og Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI). Þar ræddi hann með sundurlausum hætti þau grimmdarverk sem hann taldi sig hafa orðið fyrir. Það gerði hann skömmu eftir að honum hafði verið sagt upp en hann ýjaði ekki að því að hann ætlaði að brjóta af sér með nokkrum hætti. Um fimmtán mínútum eftir að hann skellti á Alríkislögregluna reyndi lögregluþjónn að stöðva hann fyrir að hafa ekki notað stefnuljós.

Í stað þess að stöðva hóf Ator skothríð úr hálfsjálfvirkum riffli og lögreglubílinn og særði einn lögregluþjón. Ator flúði af vettvangi og tók að endingu póstbíl Mary Granados. Hann var stöðvaður fyrir utan kvikmyndahús í Odessa og skotinn til bana. Tveir lögregluþjónar til viðbótar særðust í skotbardaga við hann.

Hann hringdi þar að auki í Neyðarlínuna á meðan á árás hans stóð.

Sjá einnig: Árásarmaðurinn í Texas hafði nýverið verið rekinn



Christopher Combs, frá FBI, segir ódæði Ator eiga langan aðdraganda og andlegu ástandi hans hafi farið hrakandi. Combs sagðist þó ekki vita hvort hann hafi átt við geðræn vandræði að stríða.

Í samtali við AP fréttaveituna segir nágranni Ator að fólk hafi verið hrætt við hann. Hann hafi verið ofbeldishneigður og árásargjarn. Þar að auki hafi hann sífellt verið að skjóta á dýr í hverfinu, aðallega kanínur, og það hafi hann gert á öllum tímum sólarhringsins.



„Við vorum hrædd við hann því maður gat séð á honum hvernig manneskja hann var. Hann var ekki indæll. Hann var ekki vinalegur. Hann var ekki kurteis,“ segir Rocio Gutierrez.

Ekki liggur fyrir hvernig Ator varð sér út um byssuna sem hann notaðist við en yfirvöld hafa sagt að hann hafi ekki staðist bakgrunnsskoðun við byssukaup. Þó er ekki vitað hvenær það var.

Vinur fjölskyldu Ator, sem New York Times ræddi við, segir hann hafa lengi átt við geðræn vandamál að stríða, hann hafi lengi verið á kant við laganna verði og hann hefði aldrei átt að hafa aðgang að byssum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×