Sport

Joshua baunar á Fury: „Ætla að berjast við gaur af barnum næst“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joshua freistar þess að ná fram hefndum gegn Andy Ruiz yngri í Sádí-Arabíu 7. desember.
Joshua freistar þess að ná fram hefndum gegn Andy Ruiz yngri í Sádí-Arabíu 7. desember. vísir/getty
Enski hnefaleikakappinn Anthony Joshua gagnrýnir landa sinn, Tyson Fury, fyrir að velja sér þægilega mótherja, eða gaura af barnum eins og hann orðaði það.

Laugardaginn 14. september mætir Fury Otto Wahlin, lítt þekktum Svía. Þar áður mætti Joshua Þjóðverjanum Tom Schwarz og vann öruggan sigur.

Joshua undirbýr sig hins vegar fyrir annan bardaga gegn Andy Ruiz yngri. Sá mexíkóski vann afar óvæntan sigur á Joshua í sumar. Þeir mætast aftur í Sádí-Arabíu 7. desember næstkomandi.

Á blaðamannafundi fyrir bardagann gegn Ruiz var Joshua spurður hvort hann ætlaði að berjast aftur við Ruiz færi hann með sigur af hólmi í bardaga þeirra í desember.

Fury sigraði Tom Schwarz í júní.vísir/getty
„Nei, ég ætla að berjast við einhvern gaur af barnum. Það er það sem menn í þungavigtinni gera, er það ekki? Ég ætla að finna auðveldan bardaga,“ svaraði Joshua.

Hann var í kjölfarið spurður hvort þessum ummælum væri beint til Furys. Joshua svaraði því játandi.

Joshua þekkir ágætlega til Wahlins, næsta mótherja Furys. Þeir mættust tvisvar sem áhugamenn og sigraði Joshua í bæði skiptin. Þeir hafa svo æft saman.

Wahlin vonaðist til að fá að berjast við Joshua eftir að Jarrell Miller féll á lyfjaprófi. Ruiz varð hins vegar fyrir valinu og vann Joshua. Sigurinn er talinn einn sá óvæntasti í sögu þungavigtarinnar.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×